Mynd: María H. Tryggvadóttir
Í sumar hefjast framkvæmdir við gerð stígs sem liggja mun fram Glerárdal að austan og inn í botn eða að Lamba, skála Ferðafélags Akureyrar. Verkefnið hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrr í vikunni að upphæð 21.485.000 króna.
Verkefninu er skipt í þrjá hluta og fékkst styrkur í fyrsta áfangann að þessu sinni. Í þeim áfanga felst að leggja malarborinn slóða frá bílastæðinu við Súluveg og 4 km fram dalinn en alls eru um 12 km inn að Lamba. Undirbúningur fyrir verkefnið er nú þegar hafinn og munu verklegar framkvæmdir hefjast innan skamms.
Stór hluti Glerárdals var friðlýstur sem fólkvangur árið 2016. Dalurinn er mótaður af jöklum og einkennist berggrunnurinn af 10 milljón ára gömlum basalthraunlögum. Nálægð við forna megineldstöð veldur því að berggerðir eru fjölbreyttar á svæðinu auk þess sem steingerðar plöntuleifar, surtarbrandur og kísilrunninn trjáviður finnast á svæðinu. Gróðurfar í Glerárdal er frekar fjölbreytt, bæði hvað varðar tegundir og gróðurlendi, en mólendi og votlendi setja svip sinn á dalinn.
Glerárdalurinn er í dag erfiður yfirferðar og verkefnið snýst fyrst og fremst um að gera hann sem aðgengilegastan til útivistar fyrir almenning með stígagerð og brúargerð yfir læki. Fólkvangurinn er mjög vannýttur nema gönguleið sem liggur upp á Súlur og yfir vetrartímann þegar snjór er yfir öllu (snjósleðar og skíðafólk). Nauðsynlegt var að áfangaskipta verkefninu þar sem aðstæður eru erfiðar þegar innar í dalinn er komið.
Búið er að vinna mikla skipulagsvinnu og teikna upp gönguleiðirnar samkvæmt samþykktum uppdrætti fólkvangsins sem bæjarstjórn og umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafa samþykkt. Stjórnunar - og verndaráætlun fólkvangsins var staðfest 2017 og eru allar framkvæmdir í fólkvangnum háðar samþykktum Umhverfisstofnunnar.