Svo er spurt í auglýsingum frá Akureyrarbæ og á aldrei betur við en nú þegar vetrarfrí í flestum stærstu grunnskólum landsins eru hafin eða að hefjast. Straumur fólks liggur norður til Akureyrar þar sem fjölskyldan getur notið góðrar samveru á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli og með ýmsu öðru móti.
Daginn er tekið að lengja allverulega og síðustu daga hefur verið prýðilegt veður í höfuðstað Norðurlands. Snjóalög á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli eru mjög góð og brekkurnar líta vel út. Brynjar Helgi Ásgeirsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli horfir björtum augum til næstu daga og vikna.
"Ég hef á tilfinningunni að eins og svo oft áður liggi straumurinn norður. Við fáum margar fyrirspurnir að sunnan og finnum að það er að byggjast upp mjög góð stemning. Það er góð skráning í skíðaskólann sem þýðir að fjölskyldufólk ætlar að nota tækifærið og njóta frídaganna saman. Færið er fínt núna og ekki útlit fyrir neitt annað en að svo verði áfram. Hér í Hlíðarfjalli er því gleðin ein við völd," segir Brynjar Helgi.
Ýmislegt er um að vera í bænum þessa dagana og hægt er að finna ótal möguleika til að njóta lífsins í vetrarfríi á Akureyri.
Á heimasíðunni halloakureyri.is hefur verið birt yfirlit yfir alls konar skemmtun, útivist og afþreyingu á Akureyri í vetrarfríinu.