Fyrsta skóflustungan tekin í Naustahverfi

 

Á þriðjudag tók bæjarstjórinn á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson, fyrstu skóflustunguna að fyrsta íbúðarhúsinu í Naustahverfi. Hverfið er rammað inn af svipmiklu landslagi og liggur beint fyrir ofan flugvöllinn, frá suðurenda bæjarins að Kjarnaskógi. Rammaskipulag Naustahverfis var unnið af Kanon arkitektum á árunum 1998-2000 á grunni verðlaunatillögu þeirra í hugmyndasamkeppni frá vorinu 1997. Höfuðmarkmiðið með nýja skipulaginu er að skapa nýtt hverfi í framhaldi af núverandi byggð, þar sem gott er að búa og starfa. Áhersla er lögð á fjölbreytt, þægileg og skýr bæjarrými sem mynda gott búsetuumhverfiog eru falleg, vistleg, skjólrík og afmörkuð af byggingum og trjágróðri.

 

Kristján Þór Júlíusson, bæjar- og gröfustjóri, tekur fyrstu skóflustunguna.

 

Í Naustahverfi verður hægt að njóta fjölbreyttra útivistasvæða og fallegs útsýnis. Með skipulaginu er stuðlað að skjólgóðum útirýmum. Lífæð hverfisins, Kjarnagata, mun liggja í gegnum hverfið með íbúðum ásamt þjónustu, verslunum og stofnunum og skilyrði verða sköpuð fyrir fjölskrúðugt mannlíf og öfluga hverfistengda þjónustu. Húsagerðir verða margvíslegar, með áherslu á sambyggð sérbýli, t.d. íbúðir sem hafa sérinnganga en eru sambyggð eða tengd með einhverjum hætti. Naustahverfi á eftir að verða fallegt og gróðursælt hverfi sem verður ekki einangrað, en vex eðlilega í framhaldi af núverandi byggð. Kanon arkitektar hafa unnið deiliskipulag 1.áfanga Naustahverfis út frá markmiðum rammaskipulagsins, en þar er gert ráð fyrir samtals 327 íbúðum ásamt grunnskóla og leikskóla.ArticleÁætlað er að Naustahverfi byggist upp á 15 árum og áætlaður íbúafjöldi verður 6-8 þús. manns í 2300-3000 íbúðum þegar það verður fullbyggt. Hverfið skiptist upp í tvö skólahverfi og eina kirkjusókn.

 

Naustahverfi er á fallegum stað á svokallaðri Suður-Brekku.

 

Í þeim áfanga sem nú er verið að hefja byggingaframkvæmdir í eru alls 158 íbúðir en búið er að úthluta lóðum fyrir 143 íbúðir. Gatnaframkvæmdir við næsta áfanga, þar sem fyrirhugaðar eru 169 íbúðir, hefjast á næstu dögum. Lóðum í þeim áfanga verður úthlutað fyrri hluta sumars og verða þær byggingarhæfar 1. nóvember n.k.

Akureyrarbær hefur á undanförnum árum unnið að metnaðarfullri fjölskyldustefnu og verður afrakstur hennar mjög sýnilegur í hinu nýja hverfi. Má þar fyrst og fremst nefna að fyrsta byggingin sem ráðist var í í hinu nýja hverfi er glæsilegur fjögurra deilda leikskóli, sem tekinn verður í notkun 18. ágúst næstkomandi, áður en fyrstu íbúar hverfisins flytja inn. Hér er sennilega um einsdæmi að ræða í byggingu íbúðarhverfa hér á landi. Þá mun nýr grunnskóli rísa við hlið leikskólans þegar íbúafjöldi hefur náð tilsettu marki. Í hverfinu verður einnig lögð áhersla á umferðaröryggi og góðar og öruggar gönguleiðir auk þess sem frá upphafi byggðar mun bærinn gróðursetja skjólbelti til að bæta búsetuumhverfi fyrir væntanlega íbúa.

 

Bæjarstjórinn afhendir væntanlegum íbúum Naustahverfis myndarlegan blómvönd.

 

Eigendur hússins við Stekkjartún 23, sem framkvæmdir hófust við á þriðjudag, eru Anna María Guðmann, myndlistarkona, og Adam Traustason, byggingarverkfræðingur.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan