Afmælisvakan er hafin

Afmælisvaka – 150 ára afmælishátíð Akureyrar hófst í dag, föstudag, kl. 14.00 þegar Íslandsklukkunni við Háskólann á Akureyri var hringt hvorki meira né minna en 150 sinnum í tilefni afmælisins og 25 ára afmælis háskólans. Það var hópur fólks úr háskólasamfélaginu og bæjarfélaginu sem skiptist á að hringja klukkunni þessi 150 slög.

Á morgun, laugardag, tekur meðal annars við eitt allsherjar karnival unga fólksins, Götulistahátíðin Hafurtask, þar sem um 120 ungmenni sýna listir sínar víðsvegar í miðbænum. Þar verður dansað og sungið, sýnd myndlist og ljósmyndun, fjöllist og hjólabrettaæfingar. Götulistahátíðin stendur frá kl. 14.00-18.00 á morgun og kl. 15.30 mætast gömlu Bravóbítlarnir og unga Akureyrar hljómsveitin Brák á sviðinu við Ráðhústorg. Bravóbítlarnir hlutu fyrst athygli árið 1965 þegar þeir unnu sér það meðal annars til frægðar að hita upp fyrir ensku hljómsveitina The Kinks á tónleikum í Reykjavík. Annað kvöld verða síðan tónleikar unga fólksins á Ráðhústorgi þar sem fram koma hljómsveitirnar Völva, Lopabandið, Buxnaskjónar og danska tónlistarkonan Cecilie Svendson. Ýmislegt verður einnig um að vera á sunnudaginn og má þar nefna dagskrána Ljóð og tóna á Sigurhæðum. Þar leikur Laufey Sigurðardóttir Partítur eftir Bach og Þorsteinn frá Hamri les úr ljóðum sínum. 

Á sjálfan afmælisdaginn 29. ágúst safnast skólabörn saman í miðbænum og gefa bænum einstaka afmælisgjöf. Bæjarstjórn Akureyrar heldur hátíðarfund í Hofi og Afmæliskór Akureyrar flytur Tónagjöf til bæjarbúa, ný verk nokkurra tónskálda sem tengjast bænum. 

Mikið verður um að vera seinni helgina, 30. ágúst til 2. september, og má þar nefna frumsýningu í Samkomuhúsinu á Borgarinnunni - sögu Vilhelmínu Lever, Exodus raftónleika í Listagilinu, Rökkurró í Lystigarðinum, hátíðarsamkomu á Akureyrarvelli og sérstaka Afmælistónleika í Listagilinu þar sem fram koma Akureyrar hljómsveitir liðinna ára s.s. Baraflokkurinn, Skriðjöklar og 200.000 naglbítar. Loks verður flugeldasýning á Pollinum. 

Hér má sjá dagskrárbækling Afmælisvökunnar sem dreift var með Dagskránni fyrr í vikunni.

Fylgist með dagskrá afmælisársins á visitakureyri.is, facebook.com/akureyri150 og akmus.is.

Des Nóv Okt Sep Ágú Júl Jún Maí Apr Mar Feb Jan